Svikin velferðarbrú.

 rjo0470l

 Svikin velferðarbrú. 

Hin svokallaða velferðarstjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur nú tekið ákvörðun um að skerða grunnlífeyri eldri borgara og öryrkja sem hingað til hefur verið ósnertanlegur.

 Velferðarbrú Samfylkingarinnar sem auglýst og boðuð var fyrir kosningar var aldrei á dagskrá.

Ekki voru liðnir margir dagar frá kosningum þegar títtnefnd Jóhanna réðst af öllu afli á grunnstólpa velferðarkerfisins í stað þess að byggja á þeim framtíð og öruggt skjól fyrir eldri borgara og öryrkja.

 Velferðarbrú Samfylkingarinnar sem auglýst og boðuð var fyrir kosningar verður aldrei byggð. Í auglýsingum um brúna mátti hins vegar sjá viðsjárverða gjá, hún virðist vera öllu raunverulegri í dag en blessuð brúin. Við skulum kíkja á hvað „heilagri Jóhönnu“ hefur tekist að afreka á þeim stutta tíma sem liðinn er frá 15. apríl

 Lagasetningu þurfti til og með lögum nr. 70/2009 náði Jóhanna ásamt ríkisstjórnarflokkunum að leiða eftirfarandi í landslög: 

Frítekjumark vegna atvinnutekna var áður 1.315.200 á ári en er nú 480.000 eða 40.000 á mánuði.

 Frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja var áður 1.315.200 á ári en er nú 300.000 eða 25.000 á mánuði.

Lífeyrissjóðsgreiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum reiknast nú til frádráttar á grunnlífeyri.

 Frítekjumark á skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði er einungis 10.000 á mánuði.

 Embættisverk „nýrrar“ Jóhönnu fá þennan dóm á vef Öryrkjabandalagsins; Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þeim kjaraskerðingum sem koma fram í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem lagðar eru auknar álögur á öryrkja í formi „lágtekjuskatts“. Og langt seilist Jóhanna í þetta sinnið því fram kemur í ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 1. júlí að:

Horfið er mörg ár aftur í tímann hvað varðar réttindi lífeyrisþega. Einnig eru innleiddar nýjar skerðingar með því að láta lífeyrissjóðstekjur skerða bæði grunnlífeyri og aldurstengda uppbót.

 Þegar rýnt er í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 70/2009 kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Einstök er sú röksemd sem fylgir ákvörðun þeirri að lækka frítekjumark ellilífeyrisþega um 835.200 kr. vegna atvinnutekna.

 Þar segir orðrétt: „Er það gert vegna þess mikla atvinnuleysis sem þjóðin stendur frammi fyrir en gríðarlegur fjöldi atvinnufærra manna og kvenna þarf að lifa af atvinnuleysisbótum einum saman.“

Gott og vel, eldri borgarar eiga samkvæmt þessu ekki að taka atvinnu frá vinnubærum einstaklingum á vinnumarkaði, sem þó var samkomulag um fyrir nokkrum misserum.

Hví sýnir Jóhanna nú ekki sjálf gott fordæmi og yfirgefur vinnumarkaðinn?

 Er hér um „einstakan árangur" að ræða og ég fullyrði að nú hafi verið slegið nýtt met í árásum á þá sem minnst mega sín.

 Höfundur er Vigdís hauksdóttir. Lögfræðingur og þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Vona að hún virði það mér til betri vegar að birta grein hennar hér á bloggi mínu, þar sem ég er einn af þeim sem hún talar um. Þ.e.a.s. Öryrki. Myndina setti ég með og er því á mína ábyrgð en ekki Vigdísar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Höfundurinn; lögfræðingurinn og þingmaðurinn er bitur eiginhagsmunapotari!

Sigrún Jónsdóttir, 12.8.2009 kl. 20:18

2 Smámynd: brahim

Ef Vigdís er það sem þú segir um hana er rétt...má rétt eins heimfæra það upp á alla aðra þingmenn hvar sem þeir í flokki standa sem og margar aðrar opinberar persónur...s.b. Útrásarvíkingana og hina umtöluðu bankamenn s.o.fl...

Að þessu leiti kemur greinin sem slík ekki persónu Vigdísar við...þetta er þarft umtalsefni sem hún skrifaði um...enda mér málið skylt sem öryrkja.

brahim, 13.8.2009 kl. 13:47

3 Smámynd: brahim

Samfélagsmál eru allra mál! Þetta stendur undir höfundarmynd þinni... myndir þú ekki segja að málefni öryrkja sem og eldri borgara sem Vigdís skrifar um...myndu flokkast undir Samfélagsmál.? 

brahim, 13.8.2009 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband